Fiskisúpa Þórðar

Áhorf: 174 | Umsagnir (0)

Fiskisúpa Þórðar

Efni, grunnuppskrift mv. fjóra:

Ólívuolía til steikingar,  venjuleg en ekki virgin. Má nota hlutlausa olíu í staðinn.
Einn stór laukur eða tveir litlir.
2 meðalstórar gulrætur, skornar í þunnar sneiðar
Karrí, 1. tsk. eða svo,  verður að vera venjulegt karrí 
Tvær dósir af niðursoðnum tómötum, heilir eða hakkaðir, e. smekk
Vatn, hálfur til einn lítri, eða eftir þörfum (fylla báðar tómatadósirnar af vatni, það er passlegt magn)
Kjötkraftur, einn teningur
Ítalskt krydd (Mc Cormick langbest), góður slatti af því, ekki fara sparlega með það. 
Svartur pipar, malaður, hnífsoddur ekki meira, það er jú karrí í þessu.
Fiskur, má vera nýr eða frosinn og allar tegundir af hvítum fiski

Eldun:

Laukurinn skorinn niður í sneiðar sem og gulræturnar og allt sett í pottinn ásamt olíunni og karríi stráð yfir. Svo er þetta steikt í pottinum þangað til að laukurinn er farinn að svitna en þó ekki brúnast en þá eru tómatarnir og vatn sett útí og svo kjötkrafturinn og ítalska kryddið. Látið ná upp suðu hrært vel í  og svo er fiskurinn settur útí og soðinn. Á meðan súpan sýður gæti þurft að bæta við vatni enda á þetta að vera súpa en ekki grautur. Ekki er hrært í eftir að fiskurinn er kominn útí en hiti lækkaður þegar sýður. Þegar fiskurinn er soðinn er súpan tilbúin í sinni einföldustu mynd.

Athugasemdir:

Laukur og steinselja. Eins og rauðlaukur er góður þá hentar hann alls ekki í þessa súpu, það er eitthvað í þessari samsetningu sem veldur því að rauðlaukur gerir súpuna ramma. Það er langbest að nota bara venjulegan lauk. Fallegast að losa laukhringina í sundur áður en þeir eru steiktir.  Ekki hakka laukinn eða skera smátt, við erum ekki að búa til pastasósu. Það er líka mjög gott að nota ferskan hvítlauk, merja svona eitt til tvö rif út í pottinn og steikja með gulrótunum og lauknum. Sé hvítlaukur notaður þá er alveg bráðnauðsynlegt að rífa eins og eitt búnt af ferskri steinselju útí súpuna. Steinselja er alltaf góð út í þessa súpu. Setja hana útí alveg undir lok suðunnar og skilja smávegis eftir til að skreyta. Bragðið af ferskri steinselju fer frábærlega með súpunni.

Tómatar. Það má alveg setja smávegis af tómatakrafti með ef fólk vill sterkara tómatabragð en mér finnst það óþarfi og sleppi því yfirleitt. Svo má líka skera niður ferska tómata og setja með, nánast upp á punt.

Karrí.  Nota ávalt venjulegt karrý eins og Gevalia eða eitthvað slíkt en ekki eitthvað sérstakt austurlenskt karrí og alls ekki sterk karrý.

Fiskur. Hversdags nota ég frosna ýsu í súpuna, set frosinn fiskinn beint útí. En ég hef notað ýsu, þorsk, skötusel, hlýra og hvaðeina, stundum allt í blandi, stundum smábita af hverri tegund, og svo er gott að setja hörpudisk útí rétt fyrir lok suðunnar enda þarf hann mun styttri suðutíma en hinn fiskurinn. Sjálfur nota ég aldrei steinbít enda þykir mér hann bragðvondur en það er auðvitað smekksatriði. Hlýri er frábær súpufiskur og fæst oft í fiskbúðum.

Matarboð. Ef maður ætlar að bjóða uppá súpuna sem rétt í matarboði er betra að hafa meira við en ofangreint. Þá er best að vera búinn að elda súpuna án fisks kvöldið áður eða að morgni og sjóða svo fiskinn í henni áður en hún er borin fram. Síðan er mjög gott að rífa ost útá súpuna áður en hún er borin fram, helst ekta parmesan og/eða Mozarella og skreyta með ferskri steinselju. Sé hún borin fram með víni þá hentar rauðvín mun betur en hvítvín. Nýtt brauð með e. smekk.

Umsagnir

Email recipient is invalid or empty.
Database Error
We are sorry, a database error has occurred and pageload stopped, an admin has been notified.
2019-01-19 11:26